Engir hlutir ķ lista
 
 
 
 

Hlišarsķšur

Prenta

Spurningar um rotžręr

1. Hvers vegna kemst vond lykt inn í hús með rotþró?

Þetta tengist ekki eingöngu rotþróm og getur líka komið fyrir í borg og bæjum. Algeng ástæða vondrar lyktar í sumarhúsum, sem dæmi, er sú að fólk kemur þangað ekki langtímum saman og vatn í vatnslásum salerna, handlauga og gólfniðurfalla þornar upp og lykt streymir inn í húsið. Þannig er viðkomandi herbergi komið í beint samband við rotþróna eða lagnakerfi bæjarins. Helsta ráðið við þessu er að hella vökva með hærri eðlisþyngd en vatn í vatnslása hússins. Það lengir uppgufunartímann. Matarolía er stundum notuð í þessu skyni.

Önnur ástæða fyrir vondri lykt er að sé salernisskál á sömu hliðarlögn og t.d. sturtubotn eða gólfniðurfall, getur salernisskálin dregið vatnið út úr vatnslásunum. Lausn á því er að útlofta lögnina salernismegin við áðurnefnd tæki eða aftengja sturtubotninn og gólfniðurfallið og tengja þau fráveitulögninni annars staðar.

2. Má hleypa sápublönduðu vatni t.d. frá vöskum og baðkeri inn á rotþró?

Það er í góðu lagi ef um eðlilegt magn er að ræða. Áður fyrr voru aðrar og „verri“ gerðir af sápum á markaðnum, sem töfðu rotnun og einnig voru rotþrær mun minni en þær eru í dag.

3. Hvað á ekki að fara inn á rotþró úr plasti?

Afrennsli heitra potta og lauga og afrennsli ofnakerfa. Ástæðan er sú að stjórntækin geta bilað og ef of heitt vatn streymir í þróna þá eyðileggst hún. Ólífrænt sorp, svo sem plast, verjur o.fl., má ekki fara í rotþró.

4. Hvað á að hreinsa rotþró oft?

Á 2ja til 3ja ára fresti, annars getur harðnað í henni og ómögulegt getur verið að hreinsa hana. Þá er ekkert að gera annað en að „skíta“ hana út og henda henni þegar hún stíflast endanlega.

5. Hverjar eru helstu ástæður fyrir tregðu á rennsli fráveituvatns í rotþró?

Þær geta verið margar, en flestar má rekja til fúsks, kunnáttu- og kæruleysis við upphaflega niðursetningu.

Hér skal bent á nokkur atriði.

a) Lang algengast er að eitthvað sé að fyrir aftan rotþróna. Hægt er að sjá þetta með því að reyna að sjá hversu hátt stendur í þrónni. Standi mjög hátt í þrónni þ.e. vatn er komið upp í dælustúta eða mannop þá er það meinið.
Það getur verið nokkur atriði sem valda þessu og má nefna allt of lítið af siturrörum, röng siturrör valin (drenrör), rangur frágangur siturbeða eða þétting í siturbeði. Afrennslisvatn þróarinnar nær ekki að renna burtu vegna þess hversu jarðvegurinn er þétttur og því safnast afrennslisvatn fyrir. Í gömlum rotþróm hefur líklega verið notað „púkk“. Nokkrar líkur eru á því að „púkkið“ hafi þéttst og taki ekki við meiru og allt sé stíflað. Við ráðleggjum því húseigendum að kanna afrennslið fyrst.

b) Rotþróin er of lítil. Sé of lítil þró valin, getur borist of mikið efni í hana án þess að það nái að rotna í henni og þá stíflast hún. Eina ráðið við því er að láta dæla úr henni og ef ástandið lagast í nokkra mánuð þá er nokkuð ljóst að þróin er of lítil. Ráðið er að stytta tímann milli dælinga úr þrónni þannig að þetta komi ekki fyrir.

c) Skortur á hreinsun. Hvað er langt síðan dælt var úr þrónni? Lengra en 2-3 ár? Ef það er tilfellið, er rétt að kalla á dælumanninn.

d) Skán. Hefur safnast fyrir hörð skán í hólfið sem næst er húsinu? Sé svo, verður að reyna að brjóta hana niður svo framarlega sem það er hægt. Sé aðeins 8” rör á fremsta hólfi, er það venjulega ekki hægt, þú hefur sparað of mikið í upphafi og keypt það ódýrasta og ómerkilegasta og geldur þess nú. Þú verður að kalla á dælubíl þó það sé ekki nauðsynlegt til að tæma þróna.

e) Of lítill halli. Oft má rekja rennslistregðu til þess að ekki hefur verið hafður nægjanlegur halli á lögninni að þrónni. Hallinn á að vera á bilinu 2-5 sm pr. metra. Of lítill halli getur þýtt uppgröft og endurlögn.

f) Hafi lögnin að þrónni verið illa undirbyggð eða rörunum hent niður í moldina, þá má búast við missigi og þá hafa rörin hugsanlega dregist út úr múffunum. Eina ráðið er að grafa upp alla lögnina og beita síðan hefðbundnu verklagi við endurlögnina.